mars 31, 2004

..::Sparkað í liggjandi mann - hugleiðing framkvæmdastjóra SKHÍ um skólagjöld::..
Það fer allt til fjandans ef...

Nú er svo komið að forystumenn Háskóla Íslands eru að bresta undan álagi skólagjaldahreyfingarinnar því að í dag verður tekið fyrir á Háskólafundi hvort leggja eigi inn formlega ósk til menntamálaráðherra hvort hún vilji beita sér fyrir því að heimila Háskóla Íslands að taka upp skólagjöld.

Háskóli Íslands er stór stofnun, því verður ekki neitað. Yfir 8000 nemendur, hundruðir lektora og prófessora og meira en þúsund aðjunktar starfa þar undir sama þaki. Samt er þetta ein af fáum ríkisstofnunum á Íslandi sem ekki hefur gengist undir stjórnsýsluúttekt. Ekki hefur verið kannað í þaula hvernig peningum stofnunarinnar er varið. Krafan um meira fé til reksturs er hávær og eðlilegt að verða við henni – eða hvað? Ef við ættum nú að beita aðferðum frjálshyggjumanna, menntuðum í fyrirtækjarekstri til að rétta við hallann, mundum við fyrst vilja sjá í hvað rekstarfé skólans fer og koma með tillögur til aðhalds áður en farið væri að sækja um yfirdrátt til að losa um ársreikningana fram að næsta aðalfundi. En það hefur ekki verið gert, þvert á móti. Mín skoðun er sú að útlátin leynist í skúmaskotum byggingarinnar sjálfrar. Hallinn hlýtur að leynast djúpt í kústaskápum bygginganefnda eða í launaumslögum fjölda millistjórnenda sem enginn veit í raun og veru hvað gera.

Athugum eitt áður en lengra er haldið, nefnilega nafngiftir framhaldsnáms. Allir skólar sem krefjast stúdentsprófs geta ekki talist háskólar samkvæmt hinni Norður-Evrópsku skilgreiningu. HÍ er rannsóknarháskóli af bestu gerð og getur því einn skóla á Íslandi fyrir utan Kennaraháskóla Íslands kallast Háskóli (University). Aðrir skólar halda ekki úti rannsóknum og eru því kollegium, þ.e. stofnanir sem mennta fólk til háskólagráðu en standa ekki straum af rannsóknum. Þannig stofnanir eru alþekktar í Evrópu og ættu því ekki að vera ný tíðindi hér norður á Íslandi.

Rökin fyrir upptöku skólagjalda eru margvísleg, staða HÍ í samkeppninni við hina nýju háskóla er algeng tugga. Hver heldur í alvörunni að skólagjöld færi HÍ auknar tekjur? Hægri stjórnin mun um leið og skólagjöldin verða leyfð minnka framlag sitt úr samneyslunni sem því nemur og allt stendur aftur á byrjunarreit. Síðan er það hin títtnefnda kostnaðarvitund hins almenna háskólanema. Algengt orðasamband sem oft heyrist. Þeir sem á þetta minnast hafa víst gleymt nokkrum grunnatriðum íslensks þjóðlífs. Við búum nefnilega í samfélagi þar sem fólk greiðir skatta og þriðja leiðin svokallaða hefur verið höfð að leiðarljósi. Stundum fær fólk það á tilfinninguna að skattar séu aðeins notaðir til að greiða niður erlendar skuldir Landsvirkjunar. Þeir eru reyndar notaðir í margt fleira. Reyndar eru skattarnir samfélaginu svo mikilvægir að ef þegnarnir greiða ekki skattana sína endar þeirra saga með dómi og fangelsisvist eins og dæmin sanna. Mönnum er refsað fyrir að greiða ekki í samneysluna. Menntakerfið er fyrirframgreitt því við skattgreiðendur höfum borgað fyrir menntun okkar nú þegar. Það er ekkert eðlilegt við það að stúdentar greiði fyrir nám sitt og það er í hæsta máta óeðlilegt miðað við það samfélag sem Ísland er í dag. Samfélag sem markvisst hefur verið byggt upp síðustu 50 árin af foreldrum okkar allra og forfeðrum þeirra og við erum öfunduð af.

Annað sem nefnt hefur verið í samhengi við upptöku skólagjalda er að ábati nemendanna sé vissulega þeirra. Vissulega er það rétt en hvað varð um ábata þjóðfélagsins alls? Menntun í lýðræðisþjóðfélögum er nausynleg til að slík fyrirbæri virki. Því er almenn sátt um að mennta skuli sem flesta í slíkum þjóðfélögum – og sem allra lengst. Háskólamenntun getur kannski verið skilgreind af sumum sem ábati fyrir einstaklinginn eingöngu ef þeir líta í launaumslagið, eða hvað? Síðast þegar ég vissi var MA nám í íslensku bókmenntum eða B.ed gráða til kennsluréttinda ekki ábatasömustu atvinnuvegirnir.