nóvember 30, 2003

..::Leiðarbókarfærslur::..
Simpson kemur víða við,
veldur breyttum högum.Leiðarbækur eru ekki einfaldar viðfangs. Ákveða þarf hvort sé verið að tala við kennarann og spurningum varpað hist og her eða hvort sé verið að lýsa skoðunum á námskeiðum og málefninu. Hlýtur því mat leiðarbókar að vera með því huglægara sem gerist.

Umfjöllunarefni námskeiðsins hafa verið fjölbreytt og víða komið við. Umfjöllun --- --- um ástæður kristinfræðikennslu var góð og gagnleg fannst nemendum. Efnið rætt og tekið skipulega saman. Það er alltof oft sem hlutir eru ræddir og ekkert gert með niðurstöður.

Lesið hef ég greinarnar allar í lesheftum, þrátt fyrir að hafa ekki skilað inn svörum við verkefnum úr þeim öllum. Eftir því sem lengra hefur liðið á námskeiðið sýnist manni að tilgangurinn verði smám saman augljósari. Það sem mér finnst standa upp úr, að mínu mati, er að nemendum er gert að mynda sér skoðun á efni sem kannski hefur ekki vakið áhuga mikin áhuga. Með því að kynna manni ólíka hluti, tengda efninu og frá ólíkum sjónarhornum verður yfirsýnin meiri og nemendum er gert auðveldara að móta sér skoðun á efninu. Nauðsynlegt er að mínu mati að nemendur hafi skoðun á því sem þeir fjalli um og eiga eftir að hafa sem viðmið eftir námið. Tek ég reyndar fram að þrátt fyrir að hafa skoðun á efninu verða þeir að geta tekið rökum og gagnrýnt afstöðu sína og annarra í fullu bróðerni.

Eitt verkefnið, var að tekið var saman hvaða námsefni er til og hvaða námsefni er kennt í samfélagsgreinum. Komst ég og fleiri að því að í raun er lítill hluti af því sem til er nýttur til kennslu. Verkefninu var skilað á veggspjaldi og reyndar haft til sýnis fyrir framhaldsdeildina. Það var áhugavert að hlusta á fulltrúa Námsgagnastofnunar svara spurningum nemenda sem greinilega voru reynslufólk úr kennslunni og með skoðanir á þessu flestu. Átti ég skemmtilegt samtal við bekkjarfélaga mína nokkru síðar um framhaldsdeildina. Ekkert af því var á neikvæðum nótum auðvitað en það sem helst brann á fólki var hvort að mikil reynsla af námsefninu sé til trafala eða bóta í framhaldsnámi. Svo að þetta sé útlistað frekar er hér átt við hvort að það sé ekki erfitt að fá inn fólk í framhaldsnám sem hefur mikla kennslureynslu og finnst KHI stundum vera langt frá raunveruleikanum. Það er, að teorían sé skökk og þeirra reynsla sé allt önnur. Þekki ég þetta frá nemenda á leikskólabraut sem hafa tekið sum námskeið með diplom nemendum. Allt starfsmenn leikskóla til margra ára og með gífurlegan reynslubanka til að bera. Nemendur leikskólabrautar (90 e. B.d.) hafa þurft að hlusta á reynslusögu á reynslusögu ofan þegar kennarinn hefur varpað fram einfaldri staðhæfingu byggða á fyrirvaranum: „...rannsóknir sýna að í flestum tilvika...”. Þá hefur oftast gosið upp hafsjór reynslusagna byggðar á afmörkuðum tilvikum. Umræðuefnið var semsagt þetta –sitt sýndist hverjum. Þetta er hér sett fram alveg hrokalaust og með miklum fyrirvara og einugis til umræðu.

Síðasta verkefni var um samþættingu námsgreina af samfélagsfræðisviðinu. Var ákveðið að skila því sem allra fyrst svo að meiri tími gæfist til próflesturs og lokaskila á uppsöfnuðum skuldum. Það er verðmætt að nemendur geti gengið í þennan hugmyndabanka þegar að æfingakennslu kemur og góð hugmynd að safna þessu saman og setja á vefinn (praktískt). Ákváðum við að samþætta siðfræði, landafræði og samfélagsfræðina með þessari einföldu spurningu: Hvert fer ruslið? Alveg ótrúlegt hvað hægt er koma upp með þegar málið er ígrundað vel, líklega verkefni sem ég mun nota í kennslu síðar meir.

Námskeiðið hefur verið afar gott og vel undirbúið enda ætti það að koma fram í mati nemenda námskeiðsins að því loknu. Góð og markviss kynning á nýjum vinnubrögðum, námskrá og hvaða álitamál þarf að hafa í huga við kennslu samfélagsgreina.

Síðasta færslan í leiðarbók var leiðbeinandi spurning frá 24. nóvember:
Kennari ákveður að skipuleggja þemavinnu á yngsta stigi sem hann kallar „heimabyggðin fyrr og nú”. Verður þetta allt of tímafrekt fyrir samviskusaman kennara sem ætlar að uppfylla sem flest þrepamarkmið aðlnámskrárinnar? Hefur kennarinn úr einhverju námsefni að moða í þessu skyni?


Hvað hefur einkennt kennsluhættina í þessu námskeiði miðað við önnur sem þið eru í eða hafið stundað? Hafið þið góðar hugmyndir um hvað hægt væri að nýta úr öðrum námskeiðum?

Heimabyggðin er nokkuð sígilt fyrirbrigði og hefur verið notað um nokkra hríð. Sjálfur var ásamt tveimur bekkjarfélögum með þetta sem tveggja vikna þemaverkefni í vettvangsnámi á fyrsta ári, fyrir nemendur í 7. bekk. Tókst okkur að samþætta allar greinar nema lífsleikni inn í Heimabyggðina og tókst ekki illa. Auðvitað er erfitt, sama hvert námsefnið er, að fylgja öllum markmiðum námskrár, þrátt fyrir að hún sé frekar opin á mörgum sviðum. Þemavinna er kannski meira notuð, skilst mér, til að brjóta upp hefðbundið nám og leyfa nemendum að þróa með sér sjálfstæð vinnubrögð. Hinsvegar þegar komið er að yngsta stigi er líklega til minna af efni og verkið reynir meira á hugmyndaauðgi kennarans. Það verður þó að teljast að líklega sé flóknara að setja upp þemanám á yngsta stigi heldur er en í eldri deildum, gætu margir kennaranemar sagt sem er að mínu mati alrangt.

Í þrepamarkmiðum 1. bekkjar, samfélagsfræði er tekið fram í „Skóli og heimabyggð” að „nemandi: - kynnist skólabyggingunni, skólalóðinni og nánasta umhverfi skólans undir leiðsögn kennara, -þekki nokkur örnefni, kennileiti og sögustaði og sögupersónur í heimabyggð”. Þessi markmið eru eins og sniðin utanum þemanámið Heimabyggðina. Börn í fyrsta bekk eru alvön þemanámi, enda er nám þeirra í meginatriðum byggt upp á þann hátt. Ekki er verið að kenna ákveðnar greina á leikskólum. Samþætting er notuð reglubundið til að vinna úr helstu kennslugreinum leikskólans; líkaminn, málrækt eða málörvun, hreyfing, náttúra og umhverfi, menning og samfélag, tónlist, myndsköpun og líkaminn.

Það eru ekki góð vísindi að kasta fram svona staðhæfingum nema að koma með lausn. Þemaverkefnið Heimabyggðin mín gæti hafist á (kveikjan) að nemendur myndu teikna götuna sína og síðan útskýrt hvað er á myndinni; hvað eru húsin mörg, gluggar, tré o.s.frv. Síðan væri hægt að færa sig út í fjöskylduna, ættartré eða eitthvað þvíumlíkt. Stærðfræði, lestur og málþjálfun væri auðveldlega hægt að tengja inn á þetta allt saman. Hægt væri að nota aðferð sem leikskólakennarar nota iðulega sem er könnunaraðferðin (young investigators, að ég held), reyndar þarf það mikla skipulagnimgu en vanur kennari hristir þetta fram úr erminni eins og ekkert sé. Svarið er semsagt að ekkert mál er að skapa þemaverkefni fyrir fyrsta bekk eða yngsta stig og uppfylla langflest markmið námskrár. Kennarinn hefur reyndar ekki mikið námsefni milli handanna en þarf þá að vinna meira sjálfur.

Spurt var um kennsluhætti námskeiðsins. Það er einkennandi fyrir þetta námskeið að lýðræðið gæti verið þema kennsluhátta og nemendur hafa mikið að segja um hvernig til tekst, enda samvinnunám. Einnig er einkennandi hversu stutt er til kennaranna, stuttar boðleiðir og aðstoð næg. Engar frekari hugmyndir úr öðrum námskeiðum þarf að nýta.