nóvember 27, 2003

..::Jólakveðja::..
fjarverandi vegna próflesturs

Sérann kveður ykkur í bil eða til 18. desember. Þá líkur prófum og ég verð aftur viðræðuhæfur og fínn. Hér verður ekkert skrifað þangað til nema að leiðinn gerist viljanum yfirsterkari. Sérann hleypur annars um skríkjandi af gleði vegna ósveigjanlegst jólaskaps og hamingju með jólasnjóinn. Get varla beðið eftir að komast í pakkana.

Sýsli er annars orðinn svo þjakaður af próflestrarleiða að bloggið hans er orðið á stærð við meðalævisögu um Halldór Killian (þó ekki Bárð Killian). Hann hefur í ýmsu staðið og marga fjöruna sopið upp á síðkastið. Sjaldan er ein kúlan stök....

Jæja, kveð að sinni og gvöð blessi ykkur...við bjóðum góða nótt.

ps. svona í kveðjuskyni er hér brot af ritsmíð, sem er analísa á greinaskrifum Gunnars Karlssonar út í vindinn, skilað í Sögu og sögunámi hér við stofnunina....

..::Blaðaskrif um sögukennslu árið 2000::..

1) Af hverju dró forsætisráðherra þessa ályktun: „Hef ég þá trú að kennsla og þekking yngri kynslóðarinnar á síðari tíma sögu þjóðarinnar sé í molum.”?
2) Geta frásagnir af óþekktum persónum á liðinni tíð átt erindi í kennslubækur sem gert er ráð fyrir að öll landsins börn lesi?
3) Eru til „venjuhelgaðir meginatburðir þjóðarsögunnar”?


1) Davíð taldi að svo væri vegna takmarkaðrar þekkingu skólabarna á andlitsmyndum sem hanga á veggjum stjórnarráðsins af stjórnmálaskörunum 20. aldar. Það hefur kannski farið í taugar Davíðs að börnin hefðu ekki áhuga á mönnum eins og Bjarna Benediktssyni, Jónasi frá Hriflu eða Ólafi Thors. Ályktunin sem Davíð dregur er alröng. Kannski hefur Davíð sviðið hversu fljótt sumir þessara skörunga falla í gleymskunar dá.

2) Í annari spurningu liggur tilvísunin í ummæli Gunnars Karlssonar úr blaðagrein hans Edelstein snýr aftur í Kjallaranum DV og grein Þorsteins Helgasonar „Óþekktar persónur” úr Morgunblaðinu. Gunnar er að gagnrýna nálgun Þorsteins Helgasonar, „aðalhöfundar námskránnar” á kennslu sögunnar. Þorsteinn hefur í sögunámsefni sínu fyrir 8. bekk fjallað um jafnaldra nemendanna sem efnið lesa sem uppi voru á 19. öld. Segir Þorsteinn í rökstuðningi sínum að: „Straumurinn í sagnfræðirannsóknum og sögukennslu í flestum vestrænum löndum hefur runnið í átt til félagslegra og menningarlegra þátta”. Það að Þorsteinn skuli gera söguefnið svona tengt samfélaginu, eða félagsfræðilegt, fer greinilega eitthvað fyrir brjóstið á Gunnari og líkir þessu við stefnu samfélagsfræðihóps Edelsteins í upphafi níunda áratugarins. Í titli greinarinnar er Gunnar að vísa til Wolfgangs Edelstein og persónugerir þessa nálgun við söguna , sem er mjög umdeilanlegt. Það þarf ekki að taka fram að þetta er umfram allt pólitísk afstaða og því lituð eftir því. Námskrá Edelsteins var langt frá því að vera gölluð, reyndar nokkuð góð: „...faglega unnin, frumleg og vönduð” segir Þorsteinn og tek ég undir það.

Getur verið að Þorsteinn hafi haft uppi þessa nálgun vegna áhugaleysi nemenda á persónu-, stjórnmála- og atburðasögu Gunnars Karlssonar sem gaf út langstærsta hluta þess námsefnis sem kennt var í sögu á Íslandi um árabil? Getur ekki verið að Þorsteinn hafi verið að færa söguna nær nemendunum til þess að kannski þeir fengu áhuga fyrir sögunni, ef svo er þá ber að þakka það framtak í staðin fyrir að rífa það niður með óhróðri og gamaldags vænisýki. Í bók eftir Steinbeck stendur á einum stað: „You dan lead the horse to the water –but you can not make it drink”. Það er ekki til eftirbreytni að vitna í erlendan texta en svona er kannski hægt að lýsa ástandinu. Það er hægt að messa yfir nemendum endalaust um ártöl og dagsetningar en það að vekja áhuga og sérstaklega skilning á sögu þarf miklu meiri vinnu og kænsku heldur en Gunna virðist átta sig á. Ef markmiðið er að nemendur fá meiri áhuga á sögu með því að skoða líf og störf jafnaldra sinna þá er fullkomlega réttlætanlegt og raunar æskilegt að frásagnir af óþekktum persónum rati inn í kennslubækur. Sagan hefur reyndar ótal birtingarmyndir og hver sagnfræðingur hefur sinn stíl. Hvernig væri ef Már Jónsson væri fengin til að skrifa sögukennsluefni? Hvað væri þá til umfjöllunar? Innkaupakvittanir Árna Magnússsonar og blóðskömm á Íslandi? Örugglega áhugavert þannig séð en kannski ekki beint hluti af hinum venjuhelguðu meginatburðum þjóðarsögunnar

3) Venjuhelgaðir meginatburðir þjóðarsögunnar eru til að mínu mati og kenndir. Söguefni Gunnars Karlssonar telst vera línuleg stjórnmálasaga með tilvísun í listir og menningu. Það eru til hlutir og atburðir sem illmögulegt væri að kenna ekki. Best sést þetta á umræðunni í Bandaríkjunum eftir að út kom þjóðarviðmið í sögukennslu 1994. Þar reyndist áherslan vera fjölmenningarleg og lítið talað um uppruna hins bandaríska samfélags, það er upprunann til hvítra, evrópskra landnema og baráttu þeirra fyrir frelsi sínu og síðar baráttunni um jarðnæði.

Fyrir minn smekk væri erfitt að hugsa sér sögukennslu án fastra punkta, og án ártala eins og: 1262, 1662, 1904, 1918 og 1944. Reyndar hefur Gunnar Karlsson viðurkennt það sjálfur með því að kaflaskil bóka hans vilja hitta á þessi ártöl og viðurkennir hann þar með að þarna hafi eithvað breyst og kaflaskil orðið. Nemendur verða að vita hvaðan þeir komu, úr hvaða grunni þeir spretta og hvaða fórnir hefur þurft að færa í aldanna rás. Reyndar er undirritaður nokkuð forn í hugsun þrátt fyrir að hann geri sér vel grein fyrir mikilvægi heimildarýni og gagnrýni nemenda á söguna, sökum þess sjálfsprottna áhuga sem kviknað getur. Því verður að teljast að til séu fastir punktar í sögukennslunni sem eru ekki endilega venjuhelgaðir heldur hreint og beint mikilvægir og séu þessvegna kenndir.