nóvember 05, 2003

..:: Dundið í Kellingunum::..
hugleiðing um fréttaskýringu

Sérdeilis gaman að vera til dag, nema í morgun, þá vaknaði ég með litla íhaldsbelgnum honum Þórlindi Kjartansyni. Ekki það að við Þórlindur sofum saman, neinei, lindi litli skrifaði nefnilega "Fréttaskýringu" í Fréttablaðið í morgun. Fjallaði hún um hversu fallegt og gott það væri að eyðileggja jafnrétti til náms á Íslandi með því að skella skólagjöldum á bak nemenda.

Upphaflega hugmyndin er víst komin frá Ágústi Einarssyni (hinum vonda) prófessor í Viðskipta- og Hagfræðideild. Vildi hann taka upp skólagjöld í meistaranámi við deildina. Talaði hann fyrst fyrir daufum eyrum þangað til rektor tók þetta upp á útskrift kandídata 25. október. Þá þurfti SHÍ að senda frá sér þessa yfirlýsingu. Sitt sýnist hverjum, en hefur SHI fullkomlega minn stuðning

Ágúst Einarsson er reyndar fæddur með silfurskeið í munni sökum tengsla fjölskyldunnar við útgerð -kannski færi því betur að segja að hann væri fæddur með toghlera og síldarnót í munni. Lindi litli hefur tekið þessa fásinnu upp á sína arma því að það er svo ofslega langt síðan hann var í Háskólanum. Hann bara man ekki hvað það er fyndið og skemmtilegt að eiga ekki krónu með gati, þrátt fyrir að innritunargjöldin séu einungis 32.500 krónur.

En það sorglegsta í Þessu öllu eru rökin sem hann færir fyrir upptöku skólagjalda. Það eru nefnilega svo margir sem eru bara að leika sér að þessu blessaða námi. Alltof fáir sem flýta sér sem mest þeir geta til að geta komist út í þjóðfélagið og borgað skattana sína í samneysluna sem alltaf verður minni og minni sökum verktaka- og fyrirtækjalýðsins sem aldrei borgar neitt en þiggur allt frá okkur hinum, lánþegum og opinberum starfsmönnum (hvenær verður þeim sem ekki borga í samneysluna neitað um aðgang að sjúkrahúsunum og þeim látið blæða út, sitjandi í rennusteininum í GK-gallanum sínum??). Þá fannst Linda litla svo ægilega fínt að setja skólagjöld á lýðin, bara svona til að halda þeim við efnið.

Umræðan er ekki ný af nálinni. Flosi Ólafsson skrifa í Þjóðviljann á áttunda áratugnum og var nákvæmlega með þessar sömu andbárur og hér eru ritaðar. Þá hafði einhver íhalds-heimskutitturin tjáð sig í sjónvarpssal um "... allar þessar kerlingar sem eru að dunda þetta uppi í Háskóla". Þá var víst allt að fara í þrot útað kerlingunum sem dunduðu við þetta með hangandi hendi.

Það er náttúrulega ekki að sökum að spyrja að þetta er fásinna hin mesta. Einungis einn hluti af þeirri löngu leið Tatcherisma sem íhalds-heimskutittunum dreymir um. Þá gengur Ísland upp í forritum hagfræðinganna, allt á vonarvöl en lánshæfi Íslands í AA flokki. Þá væri auðvitað hægt að fá lán til að fármagna ríkisábyrgðir til að fjármagna glæpastofnanir eins og DeCode sem flytja fjármagnið samdægurs í eigin vasa og úr landi.

Ég er sammála forseta Lýðveldisins sem svarað því til hér í KHÍ að leysa þyrfti vanda Ríkisháskólanna á annan hátt. Fréttina má finna HÉR.

nóvember 04, 2003

Það voru ekki þessi litlu viðbrögð sem sérann fékk við seinustu skifum sínum, ha, helduru. Alskonar karmenn (nema Jóóóiii) komu að máli við sérann og sammæltu þessu. Þessir menn væru ekkert annað en hræsnarar og vitleysingar, perrar og prumpufíklar og væru sko engin fyrirmynd. Því næst fórum við félagararnir og slátruðum bjarndýri.

Sendiherran í Mósambík kom og heilsaði upp á guðsmanninn nú í dag. Var það sérlega ánægjulegt sökum þess að karlarnir hafa ekki hist lengi. ræddum við um margt. Bar helst á góma rannsóknarstefna ríkisháskólanna, hið tvöfalda markaðskerfi í Mið-Afríku og konur. Já, enn gefa karlarnir sér tækifæri til að skeggræða um hitt kynið. Eru þessar samræður nokkuð einhæfar og beinast allar í eina átt, þ.e. að mér sökum þess að sendiherran er allt að því kominn í hnapphelduna og ekkert að frétta af honum. Verður að segjast að ekki er um auðugann garð að gresja hjá séranum, samt er garðurinn traustur, þarf bara að plægja hann.

Sendiherrann hefur lýst yfir áhuggjum sínum af því hversvegna sérann er ekki enn genginn út. Hversvegna engin griðkona hafi sveiflað séranum upp að altarinu, í það minnsta inn fyrir rúmgafl. Tekur sendiherran þessu mjög alvarlega. Hef ég nú bent sendiherranum á að ég hafi nú talið mig lifa nokkuð skemmtilegu lífi hingað til og geri enn, en sé nú orðin langeygur eftir prestsfrúnni og hafi því gengið í félagsskap nokkurn hér á Rauðarárholtinu með það að markmiði að leysa úr þessu. Aðalfélagsmenn eru reyndar bara tveir, nokkuð svipaðir og skemmtilegir karlar með sömu stefnu í mörgum málum, efnislegum og veraldlegum. Þetta félag fer reyndar ekki hátt en hefur öflugt félagsstarf, hittist nokkuð oft. Reyndar er til þriðji félagsmaðurinn en hann er hálfdrættingur og skilgreindur sem bronzmeðlimur. Fékk hann aukaaðild svona á síðustu stundu, en vegna tímaskorts komst hann ekki að í skipuritinu. Skipuritið er reyndar nokkuð stórt þegar það er prentað út, nákvæmlega 155 cm x 199 cm á hvorn veginn (hahahaha). Þetta fannst sendiherranum ekki væra nægjanlegt og hefur enn áhyggjur af þessu ástandi (óstandi) sérans. Finnst sendiherranum sérann fara sér of hægt og sýni ekki nógu mikla áræðni. Sendiherrann hefur bent á ýmsa möguleika í stöðunni, farið yfir taktík og eigin reynslu í gegnum árin, með það að leiðarljósi að sérann hlusti á viskuna, læri af og framkvæmi, -þ.e. hvernig skuli leita sér kvonfangs. Sérann tók vel þessari sýndu væntumþiggju sendiherrans í sinn garð en tók fram um leið, að þessi taktík sem upp var gefin væri örlítið fjarri sínum venjum og reyndar of erfitt til að hægt væri að framkvæma á séranns forsendum. Sendiherrann greindi þá stöðuna nákvæmlega, gaf góð ráð, skrifaði, skipurt, stöðugildaskrá og deiliskipulag fyrir það sem sérann skal gera. Nú er bara að bíða og vona og sjá hvort sendiherrann viti um hvað hann sé að tala. Reyndar er sérann nokkuð ánægður með lífið svona eins og það er, en alltaf getur gott bestnað. -...mjólk er góð


nóvember 02, 2003

::Hið metrosexual karldýr::
Sérann vaknaði snemma í morgun og drap í reykelsinu sem logað hafði síðan á föstudag. Sérann hellti upp á Bragan græna, settist við eldhúsborðið, horfði út um gluggann niður engjarnar, kveikti í smávindli og opnaði Fréttablaðið. Það annars góða rit er nú farið að berast séranum sem staðið hefur í stappi við dreifingardeild ritsins í hartnær 2 mánuði. Var svo rammt farið að kveða að afskiptaleysi dreifingardeildarinnar að sérann var farinn að sitja fyrir blaðberanum snemma morguns. Sérann faldi sig bakvið ruslatunnur með bagalinn og beið þess að einhver 12 ára svikull strákpatti mundi koma með litlu blaðberatöskuna. Þá ætlaði sérann að höggva hann niður og sækja sér sitt eintak. En aldrei ná sérann pattanum.

En kjarni málsins var að sérann las opnugrein um hinn metrósexual karlmann. Að vera metrósexual er víst eitthvað mitt á milli þess að vera venjulegur og að vera hommi (ég nenni ekki að vera pólitískt rétthugsandi á sunnudögum). Metrósexualinn er upptekinn af sjálfum sér, sér í lagi útlitinu en er samt karlmannlegur. Þetta er víst svakalega inn nú um mundir og eiga helst allir að vera "metro", þetta er víst það sem konurnar vilja (bla). Dæmin sem gefin voru af hinu Metrosexual karldýri voru nokkur. Faðir hinna íslensku metróa er víst Heiðar (púst) Snyrtir. Gagnkynhneygður karlmaður, en upptekinn af sjálfum sér og passar ætíð upp á útlitið. Annað dæmi sem gefið var er David Beckham, sá valinkunni tuðrusparkari. Hann er vís til að láta laga á sér hárið í leikhléi og spilar leiki í lillablárri þvengskýlu af konu sinni en er samt framarlega í hinni karmennlegu íþrótt. Eins og þessi dæmi segja okkur, er ekki verið að tala um einhverja venjulega snyrtilega karlmenn hér, nei ekkert annað en pervertískar kerlingar með brotna sjálfsmynd. Það er ekki nóg fyrir karlmenn, samkvæmt fréttablaðinu, að vera snyrtilegur og karmannlegur lengur. Breið bindi, Old-Spice og yfirskegg er ekki nóg lengur, o-nei. Nú þurfa sérann og hans mátar að fara að ganga í kvennmannsundifötum, ráðleggja konum um rakakrem og helst vera dæmdir fyrir vafasamt hátterni til að vera inn hjá tískuhommunum í dag.

Sérann vísar þessu á bug. Sérann ætlar að halda áfram að vera karlmaður, snyrtilegur á sinn hátt, öfgalaus með öllu. Sérann vill meina að hann sé nú engin drusla svo sem. Fylgist létt með tískunni og er svona lala hvað þetta varðar. Bara þetta venjulega þið vitið, svitafýla í lágmarki, hrein föt, engin skítur undir nöglum og aldrei í skóm úr Hagkaupum. Enn á ný, meðalhófið og létt íhaldssemi er hið besta mál.

Helgin var fín hjá séranum. Lærdómur, skemmtileg bjór-og spjallferð með Gönna úr Mýrinni, steik hjá Mútter, bíó með máginum, svilkonunni og systurinni, kaffi með nágrananum og einn með sjálfum mér.