júlí 25, 2003

Sérann er hættur í bili...fer til s-ameríku á sunnudag...ég þakka fyrir mig í bili...en fyrst er mér boðið til fundar við bokkuvinafélag Gönna og kafteins M... fyrir ykkur sem vilja fylgjast með er bent á hitt bloggið guyana2003 eða sendið póst á sérann ...hér

Þetta fer náttúrulega eftir því hvort ég næ netsambandi, ef ekki, þá ekki. Kem aftur 1. september þó ekki alsber...

...hafið það gott, látið ykkur þykja vænt um náungann og haldið lífinu einföldu meðan sérann er fjarverandi

Lifið heil

Sérann

júlí 23, 2003

Lopavettlingnum er kastað

Sýslumaðurinn hefur kastað lopavettling sínum slefblautum framan í undirritaðann. Á litla blogginu sínu er hann með litlar og ljótar færslur um sérann og bókasafn hans. Málið er, (rem facta est) að sama hvað sýsli segir langar honum til að eiga bókasafn séranns. Taka það heim og fela inni í litlum kústaskáp. Síðan ætlar sýsli að fara inn í skápinn á síðkvöldum með undarlegar brosviprur um munnvikin (ala Valdi bókaperri) og nudda leðurbandið. Ég veit að honum langar líka til að byggja sér lítið hús úr bókum, þar sem hann ætlar að sitja inni á stuttbuxum með Aloe Vera lotion og syngja litlu fluguna.

Sýlsli lætur eins og hann sé algerlega laus við bækur. Nei, svo er ekki. Hann er fársjúkur libroman og engu betri en sérann. Sýslu á bækur, það hefur komið fram. En þær eru leiðinlegar karlagrobbssögur af leiðinlegum fyllibyttum og karlapungum. Menn eins og Skúli Halldórsson, Jón Múli og Jónas Jónasson er menn sem eiga rit sín í hillum séranns. Einnig á sýsli mikið af bókum um byggingarlist 3. ríkisins og skipulag "hins fagra heimsveldis Dolla" svo ég vitni nú í sýsla. Þannig að þið sjáið lesendur góðir að söðullinn er nokkuð hár. Sýsli á einnig gott safn fágætra muna, t.a.m. 13 síma sem spanna símasögu 20 aldarinnar ásamt safni af postulínsleirvörum (postulínskettir og Barnið með tárið t.d.) Veggdiskar eru líka í miklu uppáhaldi hjá sýsla enda á hann 65 stykki sem þekja stofu hans. Allt þetta er geymt í skápum með glerhurðum og ljósi inní. Alveg makalaust fallegt.

Og sýsli segist sjá eftir 2 pylsum með öllu nema hráum ofaní sérann. Það eru ómældir tugir lítrar af kaffi, grrrrrrrænum Braga og búðingstertum sem sýsli hefur sporðrennt á mínu heimili og þeir eru fleiri sem eftir honum bíða. Sýsli var líka svo þaulsetinn að stólarnir byrjuðu að slitna. Þannig að ég þurfti að fara inn í geymslu og ná í plastábreiðurnar sem fylgdu dívaninum og setja aftur á.

Sýsli ætti að skammast sín því annars á hann óvild frú Ástu vísa, og það er ekkert til að spauga með.

júlí 22, 2003

Síðustu ljóðmæli voru sett inn til þess að fá viðbrögð. Því miður hefur enginn kvartað, líklega vegna þess ég hef brennt allar brýr að baki mér hvað geðveiki og skringilegheit varðar.

Hér í vinnunni liggur allt starf niðri. Kerfisþjónustan er að taka í gagnið nýjan IBM server sem er af hinu góða. Nema að þeir telja að allt sé í stakasta lagi... sem það er ekki og verjast allra svara. Þetta hefur það í för með sér að yfir 5000 netföng, starfsmanna og nemenda eru óvirk og allar heimasíður skólanns. Einnig eru allir prentarar óvirkir sem gerir það að verkum að ég get sleppt því að vera til, pakkað saman farið heim á kenderí eða bara lesið í bók.

Talandi um heim. Sérann er að leggja lokahönd á nýja prestsetrið sem fylgdi hinu nýja prestakalli. Gaman að segja frá því að sérann er fluttur í sókn Höfðabóndanns. Gönni mun sitja á sunnudagsmorgnum á kirkjubekk og hlusta á hið heilaga orð. Alltaf gaman að fá Gönna í kirkju, gefur stundum í nefið og syngur hærra en kirkjukórinn. Hvað er annars kór? Hér verður endursögð frásögn Gísla Ástþórssonar úr hinni merku gamanbók Einfaldar og Tvöfaldar . Ég man eins og það gerðist í gær þegar Gönni söng með kórnum. Presturinn var nýstiginn inn i kórinn og kórinn hóf upp raust sína á loftinu við kórinn. Það brast í bitum þegar kórinn á loftinu hrundi ofaní kórinn svo að undirtók í kórnum. Kórinn komst klakklaust frá þessu og steig úr kórnum fram í kórinn. Kórinn komst ómeiddur frá þessu og steig upp úr brakinu úr kórnum. (???)

Mikill tími fór í að flytja og koma fyrir bókasafni séranns. Tók það 3 ferðir á Farmallinum og fór í 19 stóra pappakassa. Sýslumaðurinn leit í vitjun, og aðstoðaði að setja upp safnið. Telur sérann að þetta hafi einungis verið gert til að fá að handleika bókasafn séranns og jafnvel stéla nokkrum bókum. Reyndar formælti sýsli safninu í ystu myrkur. Sagði það vera undarlega blöndu af, íslenskri þjóðfræði, kennslu- og skólasögu, sagnfræði, karlagrobbsævisögum (Enn á heimleið, t.d.) , perlum íslenskra bókmennta og sögu framsóknarflokksins. Sýsli, sem er krati, var orðinn svo bandbrjálaður að handleika bókasafn séranns að hann froðufelldi af bræði, milli þess sem hann drap í vindlingum á dívani vinnukonunnar. Brynki ráðsmaður gat ekki aðstoðað við flutninganna sökum heyanna.