júlí 01, 2003

Guði sé lof og dýrð að eilífu amen.
Kvikindin hjá blogspot breyttu öllu systeminu þannig að ulofpalme lá niðri (skotinn) um helgina.

Sérann hélt norður með Systur sinni Söru MA og manni hennar Þorsteini MA. Héldum við norður á Sauðárkrók og litum Skagafjörð. Á föstudag var brennt norður og kastað sér í rekkju. Ekki var sérann fyrr lentur en í hann var hringt og skólafélagar Skafirskir vildu í guðsmanninum heyra. Endaði það með smá öldrykkju og athugunum á hegðunarmynstri sveitunganna. Sauðárkrókur er fínt pláss. Þarna er allt sem maður getur óskað sér: Skóli, hross, konur, bakarí, byggðastofnum og 3 vídeóleigur. Þetta með Byggðastofnun er rakið hneyksli. Þó að sérann beri taugar í brjósti til landsbyggðarinnar er það bull að flytja stofnanir eins og Byggðastofnun og Jafnréttisstofu út á land. Stjórnsýslan er í Reykjavík og á ekki að vera annarsstaðar. Öll þessi vegalagning er til að stytta leiðina til Reykjavíkur en ekki hinn veginn - gáum að því. Hinsvegar hefur fólk rétt til að velja sér búsetustað, það er óumdeilt í huga séranns

Tökum sem dæmi. Ef við skiptum helmingi andvirðis Siglufjarðarganga milli íbúa þess norðurhjaraþorps þá myndi helmingurinn flytja suður og rest fara út í minnkabú eða fiskeldi, fara á hausinn og öll sú gamla saga.

Það að flytja stofnun eins og Byggðastofnun út á land er pólitískur hráskinnaleikur og ekkert annað. Það er ekki möguleiki að það sé ódýrara að fara með þessa stofnun út á land, það sýna ársreikningarnir. Síðan eru allir orðnir vitavitlausir á því að hross séu geymd í andyri stofnunarinnar. Svona er bara að búa þarna. Starfsmenn byggðastofnunar nota einungis hross við ferðalög innanbæjar og setja hestana við stein í afgreiðslunni. Síðan tóku starfsmenn BS upp búninga, reiðbuxur og vaxborna Barbour jakka. Forstöðumaðurinn gengur um með písk og spora og svo framvegis, í þessu liggur líklega kostnaðurinn...?

Síðan eftir að hafa skoðað Skagafjörðinn, var farið á Vesturfarasafnið á Hofsósi. Þetta safn er frábært og hefur mikið uppeldisgildi. Sýningarnar eru settar upp á pedagogiskan máta svo allir hafa gaman af. Sund á Hólum var næsta stopp, Minnismerkið skoðað kirkjan og allt umhverfið. Síðan var farið heim um Kjöl, Laugarvatn, Lyngdalsheiði og Þingvöll. Allt skoðað í þaula. Helsti Húmor litlu MA-anna var að tala íslensku með Saxneskum hreim!!!!! Sérann smitaðist herfilega og talar svona enn. Þið ykkar sem viljið vita betri deili á þessu er velkomið að hringja í sérann og fá tóndæmi, síminn er: 5680528.