júní 27, 2003

skrambinn allt i steik

júní 24, 2003

Margt fer öðruvísi en ætlað er. Klerkur ætlaði að bregða sér bæjarferð nú um helgina en tókst ekki. Enginn fékkst til meðreiðar og var því sjálfhætt við. Sérann er búinn að fá nóg af því að flakka einn um landið. Það verður ekki gert meir, onei. Föstudagskvöld var rólega stigið og nokkrar predikanir skrifaðar svona fyrir haustið. Á laugardegi brá við annan tón (Em-G) þegar biskupnum Kristjáni var fagnað að hafa lokið burtfararprófi héðan af Rauðarárholtinu. Þar var margt manna og kvenna, allir með það augnarmið að sturta í sig göróttum og brenndum drykkjum. Mikið var sungið, íslensk lög sungin margraddað og í kóraútsetningum. Sérann var einum of fljótur að koma sér á fyrsta farrými óminnishegranns. Semsagt sérann ofmat eigin getu til að brjóta niður ethanol og varð nokkuð blekaður. Sérann var með Höfðabóndann, traustum félaga á ögurstundu. Sérann yfirgaf bóndann án þess að kveðja kóng né prest sem er óvanalegt fyrir sérann, sem er ekki dónalegur að eðlisfari, stundum hryssingslegur en ekki dónalegur.

Hér með upplýsist að Sérann hafði einfaldlega fengið nóg af sjálfum sér og öðrum. Settist hann á hest sinn Vakra-Skjóna, hélt í faxið, söng Ísland ögrum skorið og vonaði að Skjóni skilaði sér heim, sem hann og gerði. Sérann fannst að morgni sunnudags, rétt fyrir messu liggjandi í jötu sem jesúbarnið forðum. Sérann hafði villst á kamersinu og fjárhúsunum. Brynki, húskarl séranns hafði ekkert gert enda veit að lítið er hægt að gera -þegar sérann er svona hress. Sérann var baðaður og kominn í predikunarstólinn laust eftir kl 11. Lærið af þessu sóknarbörn mín. Lærdómurinn er þessi: Reynið að koma fjárhúsunum öðruvísi fyrir en þannig að taka megi á þeim feil. Gott er að koma þeim frá bænum eða láta dyrnar snúa að fjallinu.

Farið varlega og forðist keldur sjálfsvorkunnar og gráts. Horfið allt um kring og hjálpið öðrum. Í guðs friði