júní 04, 2003

Sumarrigningin er hafin. Sérann hefur ágætt veðurminni enda mikið útivið á þessum tíma árs. Heyannir að hefjast og mikið að gera við viðhald á amboðum. Reyndar fer dágóður tími í að berja áfram vinnufólkið en það er önnur saga. Í júnímánuði í fyrra var rigning allan tíman, frekar niðurdrepandi. Hins vegar er það mest niðurdrepandi veður sem sérann hefur lent í var sumarið 2001. Þá hélt sérann austur á land og dvaldi við Norðfjörð í prestsafleysingum yfir sumarið. Þá kom fimm vikna tímabil þar sem hann lá í þoku. Þá er ég ekkert að tala um svona þokuslæðing eins og sést hérna sunnan heiða. Ég er að tala um alvöru austfjarðaþoku með öllum pakkanum. Lá yfir eins og teppi. Allt og allir voru vafðir inn í blauta bómull í fimm vikur. Síðan ef riðið var upp í Oddsskarð sást í heiðan himininn. Það var merkilegt að horfa yfir þokubakkann.

Norðfjörður er nokkuð merkilegt fyrirbrigði. Þetta er pláss sem telur um 1250 manns. Talan sem þið heyrið oftar er örugglega nær 1450 ekki rétt. Það er útað því að bæjarstjórn telur sér skylt að telja með alla aðkomumenn og farandverkamenn. Þá hækkar talan. Landslagið er stórmagnað, hrikaleg fjöll, grónar sveitir og speglisléttur fjörðurinn. Það sem gerir þetta allt svona merkilegt að mínu mati er það hversu blandað landslagið og atvinnuhættir eru. Þarna er sveit með beljum og Skorrastaðafólkinu til að setja svip á þetta allt saman og halda upp illdeilum. Síðan er það þorpið með frystihúsinu og öllum þeim pakka. Reyndar gerði Balti þesu öllu skil í Hafinu sem gerði víst lukku. Hann náði að fanga atmosferuna og gerði vel - færði reyndar duglega í stílinn en það er bara betra -ha, er það ekki. Fegurð sveitarinnar er mikil þó sérstaklega Fannadalsins sem er eyðidalur inn af sveitinni. Þar væri ekki ónýtt að eyða ævikvöldinu með prestfrúnni, tveim reiðhestum og 15 skjátum. Lesa guðsorð og spjalla við frúnna þess á milli og drekka uppáhelt kaffi (engar kaffivélar takk) og koníak. Eyða ævikvöldinu sáttur við guð og menn. Hafa hjá sér byssuna og stöng ef ein og ein gæs skyldi flækjast fyrir hlaupinu. Þetta er mikið tilhlökkunarefni fyrir sérann. En ýmsu þarf að koma í verk fyrst -til dæmis þetta með frúnna. Hana þarf að útvega.

Farið varlega og varist kvefbakteríur sem virðast grassera þessa dagana hjá söfnuðinum.

júní 01, 2003

..::Illska Séranns og brot úr leikriti::..
Ástandið er gott hjá séranum, en ÞAÐ HEFUR OFT VERIÐ ANDSKOTI BETRA. Sérann er bandsjóðandi öskuillur.

Eins og áður hefur fram komið er Sérann tengdur KHÍ agnarögn. Meira að segja lét sérann tilleiðast og stundaði nám í einu námskeiði nú á vormisseri. Í KHÍ er fjarnámið stór hluti allra þeirra sem læra við skólann, 55% til glöggvunar. Þetta námskeið sem sérann hlaut illa útreið í var bæði kennt fjarnemum og staðnemum. Sérann tók þetta námskeið í staðnámi og hitti kennarann og nokkra nemendur einu sinni í viku. Síðan var Sérann dreginn niður í einkunn sökum þess að hann lagði ekki nógu mikla (enga) alúð við að tjá sig á vef fjarnemanna. Reyndar slefaði Sérann kúrsinn og allt vegna þess að hann fann litla sem enga ástæðu til að tjá sig um efnið í lokuðum heimi fjarnemanna. Reyndar eru tveir kennarar sem kenna námskeiðið. Annar er af holdi og blóði og sér um þá sem eru innan skóla. Hinn er fjarkennari, sést aldrei og hefur einungis samskipti við nemendum um netið. Líklega hefur þetta farið í hennar fínustu að þetta "lið sem það heldur að það sé betra en við hin" hafi ekki séð ástæðu til að taka þátt í bullinu og viljað halda sig við alvöru akademík. Kannski gæti reiði séranns stafað af kröfum sem hann hefur sett til sjálfs sín og ekki staðist. Þetta þolir sérann afar illa, í svona 30 mínútur en gleymir síðan.

Sérann tók hinsvegar deginum með ró. Svaf til hádegis og las síðan Sturlungu í 3 tíma. Afar spennandi bók. Gengur reyndar út á pirraða bændur sem standa í lagaþætum og safna síðan liði til að vega aðra bændur með veikan málstað (kannski ætti ég að safna liði og ríða með þremur stórum tugum manna til víga). Í lok dags aðstoðaði ég Sýsla við að koma upp bókahillum. Reyndar gerði hann allt og ég var svona til ráðgjafar og álits ásamt því að lána verfæri til verksins. Sýslumaðurinn er hagur mjög á timbur og járn þannig að litlu gat ég bætt við.

Reyndar var Sturlunga tekin saman og sett í þrjú orð. - Bændur flugust á -. Þetta gerði Jón Grunnavíkingur, skrifari Árna Magnússonar (gleði mín er horfin og allt það, sá er maðurinn). Jón þessi var mikill og stórmerkur maður, afdalakarl og latínugráni sem skrifaði upp eftir hálfnöguðum skinnbrókum með mynstri. Mynstur sem reyndist vera kannski skemmtilegasti kaflinn úr Njálu...allavega var bókabruninn 1728 (eða hvenær) ekkert grín að mati kunningja míns.

Hér verður nefnlega birtur kafli úr leikriti þroskahefts kunningja mína. Leikritið heitir: Hún brennur, hún brennur, sækið reipi, og gefur alveg nýja sýn á bókabrunann og Árna Magnússon - kannski það sem raunverulega gerðist.
"Árna kemur slagandi á rifnum silkisokkum með krímuga hrosshárskárkolluna, nýkominn af dansleik með frænku konungs. Jón gamli skjálfandi og tinandi hlaupandi upp og niður stigana með bókastaflana í fanginu. Nokkrir yngissveinar, ungir skrifarar og aðstoðarmenn Jóns aðstoða:
Jón: Það brennurrr, borgin brrennurr!
Arnae: haltu kjafti kelling, það ert bara þú sem ert ruglaður af syfilis...er til portvín...
Jón: Árrni hún brrennurr það stendurr allt í ljósum logum, héðan og niðurr á Kaupmangarrastrræti..!
Arnae: ..nú ekkert portvín segiru...þá verður kúmenið að duga...
Jón: það err menningarrarrfleifð þjóðarrinnarr sem ég berr hérr í mínum gömlu örrmum (brestur í grát) og þú barra fullurr (grætur með miklm ekkasogum) og... og... og...barra villt ekkerrt gerra herra minn..
Arnae: Æ, minn vin, þú veist að ég var bara að þessu til að komast í hýalínið hjá Franchesku, algert augnayndi og kann víst eitthvað fyrir sér í ástarátökum . Ég hef engan áhuga á þessu argans drasli, onei þetta fer bara svo vel í meyjarnar og portkonurnar. Kunna latínu og svona, geta sagst vera að fara með Ovid eða Virgil og vera þá einungis að segja að viðkomandi sé með stór brjóst og vel til þess fallinn að hnoða undir beykitré með útsýn yfir Eystrasaltið..."

Sérann þakkar fyrir sig og vill af gefnu tilefni benda á lífið er fjandi gott, sólin skín og það er til ófyrirsjánlegur, ókeypis og óvæntur bjór bakvið næsta horn. Grátið ekki í svuntuhorn eða oní prjónana ykkar, lítið upp og gangið með sjó fram og veltið steinum.